Sýrur fyrir byrjendur - AHA og BHA

Póstað þann af Selma Soffia

Sýrur er eitthvað sem ég er beðin um að útskýra á hverjum einasta degi og er þessi færsla því eflaust mjög kærkomin hjá mörgum. Sýrur kunna að hljóma eins og eitthvað neikvætt eða mjög sterkt og finnst mér því margir vera hræddir við að koma þeim í húðrútínuna. Ekki misskilja, þær geta jú verið sterkar og að sjálfsögðu þarf að hafa varann á og byrja hægt en sýrur eru algjört undur í húðrútínunni og geta bjargað allskyns húðvandamálum.

AHA og BHA heita sýrurnar sem notaðar eru hvað mest í húðvörum, og er hægt að finna þær í flestum tegundum húðvara svosem, hreinsum, kremum, serumum og fleira.

Tilgangur sýra er að endurnýja húðina (e. exfoliate) og misjafnt eftir styrkleika hversu mikið þær gera, hvort sem það er að fjarlægja dauðar húðfrumur eða alveg að fjarlægja ysta lag húðarinnar.

Hvorki AHA né BHA er betri en hin, heldur liggur munurinn í sitthvorri notkuninni og er því mikilvægt að kynna sér vel hvaða virkni þín húð kann að þurfa.

Þekkt virkni þeirra er meðal annars:

  • Minnkun bólgumyndunnar sem veldur til dæmis rósroða, bólum og fleiri húðvandamála
  • Minnkar svitaholur og öldrunareinkenni
  • Jafnar litatón húðarinnar
  • Jafnar áferð húðarinnar
  • Tekur burtu dauðar húðfrumur
  • Hreinsar stíflaðar svitaholur sem þar að leiðandi minnkar líkur á bólumyndun

 

AHA

Þó AHA sýrur hljóma flestar eins í virkni er virkni þeirra oftast á einhvern hátt misjöfn og mikilvægt að finna sýru sem hentar hverjum. Mikilvægt er að nota sólarvörn þegar maður er reglulega að nota AHA sýrur þar sem þær gera húðina sérstaklega viðkvæma fyrir sól (ath. þó er alltaf mikilvægt að nota sólarvörn). AHA sýrur eru til dæmis:

Glycolic 

Glycolic sýra er ein vinsælasta AHA sýran og er hún að mestu unnin úr sykurreyr. Glycolic hentar flestum húðtýpum og finnst hún í flestum tegundum húðvara eins og til dæmis toner og hreinsum. Hún endurnýjar húðina á mildann hátt og virkar því vel til notkunar til lengri tíma. Einnig inniheldur hún sótthreinsandi eiginleika sem geta dregið úr líkum á bólumyndun.

Lactic

Því næst er það Lactic sýra. Þessi sýra er einnig mjög vinsæl AHA sýra, en öðruvísi en flestar aðrar AHA sýrur sem dregnar eru úr ávöxtum að þá er Lactic sýra dregin úr laktósa úr mjólk. Lactic sýra er þekkt fyrir að hafa einstaklega góða endurnýjunareiginleika þrátt fyrir að vera frekar mild á húðina, og vinnur hún einnig á öldrunareinkennum.

Mandelic

Mandelic sýra er með þeim mildustu af AHA sýrunum og henta því vel fyrir viðkvæmar húðtegundir. Mandelic er dregið úr möndlum. Mandelic vinnur í að bæta litatón húðarinnar og yfirbragð, ásamt því að geta minnkað svitaholur.

 

 

BHA 

Svo eru það BHA sýrurnar. Þær geta verið meira ertandi fyrir húðina en AHA og því betra að byrja nokkur kvöld í röð og vinna sig síðan upp á meðan húðin er að venjast. BHA gerir húðina ekki eins viðkvæma fyrir sól eins og AHA en þó alltaf mikilvægt að nota sólarvörn. 

Salicylic

Salicylic sýra er ein þekktasta BHA sýran og er hún þekktust fyrir virkni sína við bólum. En einnig getur hún verið mjög hjálpleg við roða og bólgum.

 

Að blanda AHA og BHA

Til eru einhverjar húðvörur þar sem AHA og BHA sýrum er blandað saman eins og AHA 30% + BHA 2% Peeling Solution frá The Ordinary. Ekki er mælt með því að nota AHA sýrur með BHA sýrum þegar það eru sitthvorar formúlurnar. Þá er betra að nota sitthvora sýruna á kvöldin og svo á daginn, eins og Lactic Acid á kvöldin og Salicylic Acid á morgnana.

Einnig er hægt að nota BHA og AHA sýrur sitthvorn daginn eða setja þær á misjöfn svæði á andlitinu. Eins og AHA á þurr svæði en BHA á olíukennd svæði.

Ekki er gott að nota sýrur með Retinol eða Vitamin C þar sem það getur verið of ertandi fyrir húðina, og þurrkandi.

 

 

Sýrur á meðgöngu

Sumir læknar vilja meina að best sé að forðast allar sýrur á meðgöngu, semsagt BHA og AHA. En flestir eru á þeirri skoðun að AHA sýrur eins og Glycolic, Lactic og Mandelic Acid sé alveg óhætt að nota.

Einnig má nota rakasýrur eins og Hyaluronic og Amino Acids þar sem það eru ekki sýrur eins og um er að ræða í þessari færslu heldur rakasameindir. Það er misskilningur sem ég leiðrétti nánast alla daga. En Hyaluronic Acid og Amino Acids eru formúlur sem vinna í að næra, gefa raka og plumpa húðina. Þær eru því ekkert sem þarf að hafa áhyggjur af og má nota þær með flestum öðrum vörum.

 

Sýrur er eitthvað sem þarf alls ekki að vera hræddur við og er að mínu mati með mikilvægustu húðvörunum til að eiga í skápnum. Það sem er mikilvægt er að finna réttu sýrurnar sem henta þér og þinni húð og þá fara hlutirnir að gerast. Eftir stuttann tíma er hægt að sjá hversu góð áhrif sýrur hafa. Sumir vilja jafnvel meina að sýrur séu náttúrulega formið af Retinol þar sem þær vinna í að endurnýja húðina á svipaðann hátt og geta skilið mann eftir með nánast nýja húð.

Eins og alltaf má endilega senda mér uppástungur að nýjum færslum eða leita ráðgjafar til mín á instagram, þar er ég undir nafninu selmasoffia <3